Hjónaskilnaðir eru daglegt brauð en sem betur fer eru fá dæmi um að fólk skilji á sjálfri brúðkaupsnóttinni.
Það gerðist hins vegar á dögunum í Sádi-Arabíu, þegar nýbakaður eiginmaður ákvað að skilja við konuna sína í skyndi eftir að fyrrverandi elskhugi hennar sendi honum minnislykil sem innihélt nektarmyndir af konunni.
Hjónin voru stödd á hóteli, þar sem þau ætluðu að verja brúðkaupsnóttinni, þegar brúðguminn fór í tölvu og barði umræddar myndir augum.
Elskhuginn fyrrverandi hafði beðið konuna um að stofna til ástarsambands með sér en eftir að hún tilkynnti honum að hún hygðist giftast öðrum manni og hefja nýtt líf hótaði hann henni að senda myndirnar til verðandi eiginmanns, sem hann og gerði.
„Hann ákvað að skilja við konuna sína á staðnum,“ hafa fjölmiðlar í Kúvæt eftir trúarleiðtoganum Shaikh Ghazi Bin Abdul Aziz al Shammari, sem eiginmaðurinn leitaði til í öngum sínum daginn eftir brúðkaupsnóttina örlagaríku. „Hann var í áfalli og þoldi ekki hneykslið.“