Starfsmenn skyndibitakeðja í Bandaríkjunum þéna að meðaltali níu Bandaríkjadali á klukkutímann, en bágborin launakjör þeirra hafa verið reglulega til umfjöllunar í þarlendum fjölmiðlum.
Samkvæmt fjölmiðlum vestan hafs greiddi matvælafyrirtækið YUM!, móðurfélag KFC, Taco Bell og Pizza Hut, forstjóranum sínum 22 milljónir Bandaríkjadala í laun á síðasta ári. Forstjóri McDonalds fékk heldur minna, 7,7 milljónir Bandaríkjadala.
Meðallaun forstjóra í skyndibitageiranum hafa fjórfaldast síðan árið 2000. Í ruslfæðinu hafa topparnir yfir þúsundföld laun hinna lægst launuðu, sem er mesti launamunur í bandaríska hagkerfinu. Til samanburðar má nefna að forstjórar smásölufyrirtækja í Bandaríkjunum eru með 304-föld laun þeirra sem minnst þéna í geiranum, og í byggingageiranum er munurinn 93-faldur.
Lág laun í ruslfæðisgeiranum hafa orðið til þess að ríflega helmingur þeirra lægst launuðu neyðast til að framfleyta sér og sínum með félagslegum úrræðum.