Það var varla hugmynd Tom Morris, listræns stjórnanda í Bristol Old Vic-leikhúsinu, að gestir sinfóníutónleika misstu vitið ef hann leyfði þeim að hegða sér eins og á popptónleikum. Gjörningur Morris gekk út á að bjóða tónleikagestum að rísa úr sætum og standa við sviðið, klappa og hrópa á meðan flutt var óratóría Händels, Messías.
Var þar í hópi aðdáenda doktor einn í efnafræði við Bristol-háskóla, David Glowacki að nafni. Sá var svo heillaður af flutningi hljómsveitarinnar að hann hóf að riða fram og aftur með báðar hendur á lofti og hrópa lofyrði. Vitni segja hann svo hafa reynt að stökkva fram af sviðinu í hóp áhorfenda með það að markmiði að láta hópinn bera sig.
Áhorfendurnir voru hins vegar orðnir þreyttir á truflunum Glowackis svo að þeir tóku málin í sínar hendur og báru hann út úr salnum. Tom Morris segir þetta vera í fyrsta sinn síðan á átjándu öld sem svipað atvik á sér stað. Svona fer ef formlegheit og prjál skipta ekki lengur máli á klassískum tónleikum.