Sykursýki er vaxandi sjúkdómur en aukning sjúkdómsins meðal íbúa í Kína á undanförnum árum hefur verið ógnvænlega hröð. Í skýrslu Alþjóðlegu sykusýkissamtakanna (International Diabetes Federation) kemur fram að 98,4 milljónir Kínverja séu nú með sykursýki en heildaríbúafjöldi í Kína er um 1,4 milljarðar. Árið 2015 er ráð fyrir því gert að 142,7 milljónir Kínverja muni verða með sykursýki. Í ljósi þess að Kínverjum er ekki að fjölga, líkt og flestum öðrum þjóðum, þá er vöxtur sykursýki í landinu gríðarlega mikill. Gert er ráð fyrir að Kínverjar verði svipað margir árið 2035 og þeir eru nú eða jafnvel lítið eitt færri, samkvæmt mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna.
Sykursýki er sjúkdómur, sem gerir það að verkum að sykurmagnið (þrúgusykur/glúkósi) í blóðinu er meira en venjulega, samkvæmt hefðbundinni einfaldri skilgreiningu. Rannsóknir á sykursýki hafa sýnt mikil tengsl milli lífstíls einstaklinga og sykursýki. Því óhollari lífstíll, það er lítil hreyfing og óhollt óhóflegt mataræði, því meiri líkur eru á sykursýki.
Sé horft til þeirra fimm þjóða sem eru með flesta sykursýkissjúklinga, þá koma Indverjar næst á eftir Kína með 65,1 milljón sykursjúkra. Eins og búast má við eru fjölmennustu ríki heimsins á lista þeirra 5 þjóða sem eru með flesta sykursjúkra, en spáin fyrir 2035 gerir ráð fyrir töluvert mikilli fjölgun þeirra sem greinast með sykursýki.
Topp 5 listi yfir íbúa þjóða sem þjást af sykursýkir, og hvernig staðan mun líta út árið 2035, samkvæmt spá, má sjá hér að neðan.
-
Kína (1,4 milljarðar íbúa) - 98,4 milljónir sykursjúkra - 142,7 milljónir sykursjúkra árið 2035.
-
Indland (1,2 milljarðar íbúa) - 65,1 milljónir sykursjúkra - 109 milljónir 2035.
-
Bandaríkin (330 milljónir íbúa) - 24,4 milljónir sykursjúkra - 29,7 milljónir 2035.
-
Brasilía (203 milljónir íbúa) - 11,9 milljónir sykursjúkra - 19,2 milljónir 2035.
-
Rússland (146 milljónir íbúa) - 10,9 milljónir sykursjúkra - 11,2 milljónir 2035.