Eftir um tæpan klukkutíma hefst leikur Chelsea og Man. Utd. á Old Trafford. Þetta er sannkallaður stórveldaslagur, þó Chelsea hafi byrjað leiktíðina mun betur. Chelsea er í efsta sæti með tíu stigum meira en Man. Utd., 22 stig, en bæði lið hafa leikið átta leiki. Man. Utd., sem er með tólf stig, getur komist einu stigi ofar en Liverpool en þessir fornu stórveldafjendur eru í 7. og 8. sæti deildarinnar, Liverpool með fjórtán stig en Man. Utd. með tólf, eins og áður sagði.
Leikir Chelsea og Man. Utd. hafa í gegnum tíðina verið hin besta skemmtun, og hafa mörg söguleg og glæsileg mörk verið skoruð í þeim. Kjarninn skoðaði fimm eftirminnilegar viðureignir þessara liða, og eftirminnileg atriði úr þeim.
5. Eiður Smári Guðjohnsen skorar 2004/2005
Þetta er ekki fallegasta mark sem hefur verið skorað, svo mikið er víst. En sigurinn var sögulegur á margan hátt. Jose Mourinho var þarna að stýra Chelsea í fyrsta skipti í deildarleik, þar sem þetta var fyrsti leikur tímabilsins. Didier Drogba var einnig að spila sinn fyrsta leik. Markið kom eftir skallasendingu frá Drogba á Eið Smára.
https://www.youtube.com/watch?v=tf-lyJZAMJw
4. Ótrúlegur leikur Cristiano Ronaldo
Man. Utd. var með magnað lið leiktíðina 2008/2009. Þar fór fremstur meðal jafningja Cristiano Ronaldo. Í leiknum gegn Chelsea héldu honum engin bönd, og er þá ekki sérstaklega litið til marka eða stoðsendinga. Heldur var alhliðaleikur hans með ólíkindum. Hann lék sér að varnarmönnum Chelsea og dældi boltanum inn í teiginn allan leikinn.
https://www.youtube.com/watch?v=lvOpupa5WpI
3. Rautt spjald og slagsmál í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2008
Man. Utd. vann úrslitaleikinn gegn Chelsea, eftir mikinn baráttuleik, framlengingu og vítaspyrnukeppni. Í framlenginunni sauð upp úr og Didier Drogba var rekinn af velli. Leikmenn Chelsea heimtuðu Argentínumanninn Carlos Tevez af velli.
https://www.youtube.com/watch?v=LwwEWnl0seI
2. 5-3 sigur Man. Utd. gegn Chelsea 1995
Markasúpan frá 1995 gleymist seint. Þarna var David Beckham meðal annars í essinu sínu. Og hinn vanmetni Andy Cole, sem enska landsliðið notaði lítið sem ekkert, þó hann hefði augljóslega átt að vera þar lykilmaður árum saman.
https://www.youtube.com/watch?v=JRFhgz8rwe4
1. 5-4 sigur Chelsea í deildarbikarnum 2012
Önnur markasúpa, örlítið nær okkur í tíma, frá árinu 2012 í deildarbikarnum, gleymist ekki svo glatt. Mörkin í leiknum voru sérlega glæsileg og margir ungir menn minntu á sig í leiknum, og sýndu hvað þeir gátu. Þar á meðal Daniel Sturridge, sem nú er í framlínu Liverpool, og Belginn Eden Hazard, sem átti frábæran leik. Einn maður dró síðan vagninn fyrir Man. Utd. og var eins og unglamb í framlengingunni. Hinn tæplega fertugi, á þessum tíma, Ryan Giggs.
https://www.youtube.com/watch?v=LwwEWnl0seI