Hinn sífellt vaxandi ferðamannastraumur sem liggur til Íslands hefur vart farið framhjá neinum. Fjöldi erlendu gestanna sem ákveða að heimsækja okkar harðbýlu, hrjúfu en stórkostlega fallegu eyju hefur farið úr því að vera 248.580 árið 2002 í að verða 781.016 í fyrra. Þá náði ferðamannaiðnaðurinn líka að verða stærsta útflutningsstoð þjóðarinnar þegar hann náði í 275 milljarða króna í tekjur, eða 26,8 prósent af öllum útlutningstekjum Íslands það árið. Þar með tók ferðamannaiðnaðurinn fram úr sjávarútvegi (25,5 prósent) og áliðnaðinum (21 prósent).
Áríð í ár mun síðan slá öll met. Í lok ágúst voru ferðamennirnir þegar orðir um 700.000 talsins og ljóst að heildarfjöldinn mun verða enn meiri en í fyrra. Margir hafa miklar áhyggjur af þessari hröðu aukningu og telja að innviðir muni ekki þola mikið meiri ágang. En hvar stendur Ísland í samanburði við stærstu ferðamannalönd heimsins?
5. Ítalía (47,7 milljónir gesta)
Það kemur líkast til fæstum á óvart að Ítalía sé einn vinsælasti áningastaður ferðamanna í heiminum. Landið er enda ríkt af stórbrotinni sögu, mögnuðum mannvirkjum, ríkri matarhefð og auðvitað þrælfínu veðurfari. Róm, Feneyjar, Flórens og allir hinir staðirnir í stigvéla-landinu trekktu að 47,7 milljónir ferðamanna á árinu 2013.
4. Kína (55,7 milljónir gesta)
Risinn í Asíu er líka langvinsælasta ferðamannaland álfunnar. Þangað komu 55,7 milljónir manna í fyrra, eða um 29 milljón fleiri en heimsóttu Tæland, sem er í öðru sæti yfir vinsælasta ferðamannalandið í Asíu. Kínamúrinn, menningin og blóði drifin sagan hjálpast öll að við að draga upplifunarþyrsta túrista til Kína. Það verður þó að teljast áhyggjuefni fyrir Kína að ferðamönnum fækkaði um tvær milljónir á milli ára.
3. Spánn (60,7 milljónir gesta)
Spánverjar hafa upplifað miklar efnahagslegar hremmingar frá því að alþjóðlega fjármálakreppan skall á árið 2008. Atvinnuleysi ungs fólks hefur til að mynda verið vel á þriðja tug prósent. Það sem hefur bjargað landinu frá enn verri útreið er gríðarlegur áhugi þeirra sem búa þar ekki að heimsækja sólríkar strendurnar á Suður-Spáni, hina æðislegu Barcelona-borg eða suðupottinn Madrid. Ferðamönnum sem heimsóttu Spán fjölgaði um 3,2 milljónir í fyrra og voru alls 60,7 milljónir.
2. Bandaríkin (69,8 milljónir gesta)
Bandaríkin eru ekki bara valdamesta ríki heims, heldur lika næst vinsælasti áningastaður ferðamanna hans. Alls komu 69,8 milljónir manna til ríkjanna 50 á árinu 2013, sem var rúmum þremur milljónum fleiri en árið áður. Það verður að teljast dágóður árangur hjá ríki sem reynir að vera eins fráhrindandi í öryggisleitinni á alþjóðaflugvöllum þjóðarinnar og mögulegt er.
1. Frakkland (84,7 milljónir gesta)
París, Rivíeran, vínhéröðin, strendurnar og allt hitt sem gerir Frakkland æðislegt varð til þess að 84,7 milljónir manna heimsóttu landið heim á árinu 2013. Það er 15 milljónum fleiri en þeir sem fóru til Bandaríkjanna. Ferðamennirnir sem settu met í að heimsækja Ísland í fyrra eru einungis eitt prósent af þeim sem fara til Frakklands árlega. Snobbuðu baguet-æturnar eru því sannarlega að gera eitthvað rétt.