Allt stefnir í að Dagur B. Eggertsson verði næsti borgarstjóri Reykjavíkur, en honum er mikið í mun að gengið verði frá meirihlutasamstarfi Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, VG og Pírata áður en HM í fótbolta hefst í Brasilíu hinn 12. júní næstkomandi. Dagur hefur reynslu af því að vera borgarstjóri, eða hefur að minnsta kosti fengið smjörþefinn af því, er hann var borgarstjóri í rúma þrjá mánuði á árunum 2007 til 2008. Í tilefni af fyrirhuguðum borgarstjóraskiptum í Reykjavík rifjar Kjarninn upp fimm eftirminnilegustu borgarstjóranna í höfuðborginni.
4. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Villi var borgarstjóri í sextán mánuði á árunum 2006 til 2007. Í valdatíð meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þá varð hann formaður borgarráðs þegar Sjálfstæðisflokkur og F-listinn mynduðu meirihluta. Vilhjálms verður helst minnst fyrir REI-ævintýrið, þar sem hann var ýmist ósannsögull eða sem þorskur á þurru landi. REI-bíóið varð einmitt til þess að meirihlutasamstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Reykjavík sprakk í loft upp og Villi einangraðist í borgarstjórnarflokknum. Svo mjög að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks sögðust til í hvað sem er án gamla góða Villa.