Róbert Wessman, forstjóri og forsprakki alþjóðlega lyfjafyrirtækisins Alvogen, hefur talað fyrir miklum vaxtaráformum fyrirtækisins hjá alþjóðlegum bönkum að undanförnu og er stefnan sett á að auka tekjur margfalt á næstu þremur árum. Í einni sviðsmyndinni sem teiknuð var upp í kynningu Róberts fyrir austurríska bankann Reiffeisen hinn 28. október í fyrra, sem Kjarninn hefur undir höndum, kemur fram að tekjur fyrirtækisins á þessu ári verði 460,6 milljónir Bandaríkjadala en muni vaxa uppi í 902,5 milljónir dala á árinu 2017; tæplega tvöfaldast á þremur árum. Miðað við núverandi gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Seðlabanka Íslands nema 902,5 milljónir dala ríflega hundrað milljörðum króna.
Einnig er gert ráð fyrir að EBITDA-hagnaður (rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta) muni vaxa jafnt og þétt á þessum tíma; fara úr 69,2 milljónum dala í 217,2 milljónir dala. Helsta markaðssvæði fyrirtækisins er Bandaríkin, að því er fram kemur í kynningunni, en af ríflega 69,2 milljóna dala EBITDA-hagnaði fyrirtækisins á þessu ári munu 52,3 milljónir dala koma frá Bandaríkjunum. Önnur sterk markaðssvæði Alvogen eru Mið- og Austur-Evrópa og Asía.
Þetta er örstutt brot úr umfjöllun Kjarnans um vaxtadrauma Alvogen. Lestu hana í heild sinni hér.