Þann sjöunda ágúst 1987 lagði Lynne Cox af stað í leiðangur sem átti bæði eftir að verða langur og kaldur. Hún vaknaði snemma, fékk sér staðgóðan morgunverð, fór í sundbol og rölti niður á strönd á Litlu-Díómedeseyju í Alaska sem liggur í Beringssundi. Hún stakk sér í fjögurra gráðu kaldan sjóinn, synti af stað og lét ekki staðar numið fyrr en eftir tvær klukkustundir og fimm mínútur, þá 4,3 kílómetrar að baki, þegar hún kom í land í Sovétríkjunum, nánar tiltekið á Stóru-Díómedeseyju í Síberíu.