Í þriðja þætti Aðfararinnar er farið yfir það helsta í skipulagsfréttum vikunnar.
Vegagerðin og Hafnafjarðarbær kynntu ný mislæg gatnamót á mótum Krísuvíkurvegar og Reykjanesbrautar og á borgarstjórnarfundi vikunnar var samþykkt að skoða nýja útfærslu á gatnamótum Bústaðavegs og Reykjanesbrautar.
Í ljósi þessa velta Guðmundur og Magnea upp spurningunni um hvort mislæg gatnamót séu góð lausn við umferðavanda og best til þess fallin að tryggja öryggi fólks í umferðinni. Gömul en góð frétt Þorbjörns Þórðarsonar um önnur mislæg gatnamót var rifjuð upp af þessu tilefni þar sem rætt er við prófessor í samgönguverkfræði um kosti og galla þessara risamannvirkja.
Hönnunarmars kemur einnig við sögu í þættinum en á meðal viðburða á hátíðinni var opnun sýningarinnar „Hvað er í gangi?“ í Ráðhúsi Reykjavíkur sem fjallar um þróun uppbyggingar í miðborginni. Uppbyggingin er útskýrð með módelum, tölfræði og skemmtilegum viðtölum. Í þættinum er fjallað um tæki skipulagsyfirvalda til að stýra uppbyggingunni og hvaða leiðir er hægt að fara til að tryggja fjölbreytta og blandaða byggð.
Í nýju tölublaði Borgarsýnar, fréttariti Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur er fjallað um framkvæmdir í kringum Klambratún, rammaskipulag Elliðavog-Ártúnshöfðasvæðisins og samkeppni um Gufunes svo fátt eitt sé nefnt.
Hlustendur eru einnig hvattir til að kynna sér nýtt deiliskipulag KHÍ-reitsins sem nú er í kynningu en til stendur að fjalla ítarlega um það á næstunni.
Aðförin er nýtt hlaðvarp um skipulagsmál. Umsjónarmenn eru Magnea Guðmundsdóttir og Guðmundur Kristján Jónsson.