Er Akureyri borg? Hvernig leggjast fyrirhuguð þéttingaráform í bæjarbúa? Hvernig hefur umdeilt miðbæjarskipulag frá árinu 2005 þróast?
Á dögunum lögðu skipulagsyfirvöld Akureyrar fram nýtt aðalskipulag með áherslu á aukna þéttingu í bænum. Í Aðförinni þessa vikuna er rætt við Akureyringinn og arkitektinn Loga Má Einarsson, en hann er flestum kunnugur sem formaður Samfylkingarinnar.
Logi hefur áralanga reynslu í skipulagsmálum á Akureyri og bendir á að þrátt fyrir smæð sína, þarf höfuðstaður Norðurlands að fást við sömu áskoranir um samgöngur og þéttingu byggðar eins og flestar aðrar borgir í dag.
Logi ræddi líka viðhorf sín til flugvallarins í Vatnsmýri. Ljóst er að völlurinn verði fluttur og það kæmi öllum landsmönnum illa ef nýrra lausna verði ekki leitað sem fyrst.
Aðförin er hlaðvarpsþáttur um skipulagsmál. Umsjónarmenn þáttarins eru Guðmundur Kristján Jónsson, aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Magnea Guðmundsdóttir, varaformaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.