Gestir Aðfararinnar að þessu sinni eru Sigurborg Ósk Haraldsdóttir og Hildur Björnsdóttir en þær sitja báðar í skipulags- og samgönguráði hjá Reykjavíkurborg. Sigurborg sem formaður fyrir hönd Pírata en Hildur fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.
Á liðnum vikum hefur borgarstjórn samþykkt tvö mikilvæg og stefnumarkandi skipulagsmál í borginni, þ.e. um framtíð göngugatna í miðborginni og næstu skref Borgarlínu. Eftir þessa tvo mikilvægu áfanga þyrsti okkur í frekari upplýsingar og vildum því heyra það beint frá kjörnum fulltrúum hvað stæði til.
Við ræddum um mikilvægi Borgarlínunnar og lýstu þær fyrir okkur næstu skrefum við áframhaldandi framgang verkefnisins, þær áskoranir sem það stendur frammi fyrir og hvernig viðhorf til verkefnisins er að vissu leyti kynslóðaskipt. Þær sögðu líka frá því hvernig þær sjá fyrir sér framtíð göngugatna í borginni og að vinnan næstu mánuði fælist líka í því að skoða gönguvæðingu Kvosarinnar.
Að lokum fórum við hratt yfir þau fjölmörgu og spennandi svæði í borginni sem hægt væri að gera svo miklu meira spennandi. Við þökkum Sigurborgu og Hildi kærlega fyrir komuna í þáttinn og lofum okkur að vera vongóð fyrir hönd borgarbúa um meiri og betri borg eftir þetta góða spjall.
Aðförin er hlaðvarpsþáttur um skipulagsmál. Umsjón með þættinum annast Magnea Guðmundsdóttir arkitekt og Birkir Ingibjartsson arkitekt.
Kjarninn í samstarfi við Storytel bíður þér að hlusta frítt á þúsundir hljóðbóka í símanum þínum í 30 daga. Það eina sem þú þarft að gera er að skrá þig á www.storytel.is/kjarninn og byrja að njóta. Storytel.is, þúsundir hljóðbóka í símanum þínum.