Erpur Þórólfur Eyvindarson, sem oft gengur undir nafninu Ali Höhler, er gestur Grettistaks. Þrátt fyrir að vera pólitískur öfgamaður með víðtæk tengsl við ógæfu og óreglumenn gaf hann sér dágóðan tíma til þess að spjalla um hin ýmsu mál. Eftir að hafa rætt Havana Club, sem fyrir algjöra tilviljun var á boðstólnum, var farið yfir gamla tíma og hvernig hann heillaðist að rappi til að byrja með.
Það er oft fylgifiskur rappsins að lenda í erjum eða „beefa“ við aðra innan rappheimsins sem og utan hans. Erpur sagði söguna af því hvernig og af hverju Sjálfstæðismaðurinn og fyrrum þingmaðurinn sem sat inni, Árni Johnsen, slökkti á tónlistinni þegar að XXX Rottweiler spiluðu á Þjóðhátíð í Eyjum á sínum tíma. Árni hafði ekki tekið vel í það að vera nefndur á nafn í laginu „Þér er ekki boðið“.
Árni er ekki eini maðurinn sem Erpur hefur lent í erjum við. Þekkt er þegar að rapparinn Móri réðst að Erpi í hljóðveri 365 í Skaftahlíð með hníf og rafbyssu. Einnig hafði Móri komið með hund sér til aðstoðar en hann var meira fyrir svefn heldur en ofbeldi. Bensínsprengjuárásir á bandaríska sendiráðið voru einnig ræddar en Erpur er einn af fáum sem hafa verið kærðir fyrir að smána annað land.
Eftir um það bil hálfa Havana-flösku barst talið að textasmíð, en Erpur hefur ásamt fleiri röppurum oft fengið skammir fyrir texta sína. Þeir eiga að vera of grófir, langt frá því að vera femínískir eða einfaldlega hvetja til vímuefnanotkunar. Farið varið í gegnum þrjú textabrot sem Erpur sjálfur hefur samið, misgróf.
Þetta eru eingöngu brot af því sem var rætt í þessum lengsta þætti í sögu Grettistaks.