Dóri DNA er gestur Hismisins þessa vikuna en hann á afmæli í dag. Hann er hins vegar að mæta í annað afmæli í kvöld þegar uppistandshópurinn Mið Ísland þar sem Dóri er meðlimur heldur upp á fimm ára starfsafmæli í Þjóðleikhúskjallaranum. Árni Helgason og Grétar Theodórsson fóru þó engum silkihönskum um Dóra þrátt fyrir afmælið og ræddu stóru málin.
„Ég spyr mig: Ef það væri ekki flugvöllur í Vatnsmýrinni; þetta væri bara autt byggingaland, og einhver myndi segja: „Hey, eigum við að hafa flugvöll þarna?“ Yrði það samþykkt bara?“ spyr Dóri og uppsker hlátur þáttastjórnenda. „Síðan er ég svolítið hissa á því að það sé þessi mikli stuðningur við þennan flugvöll, að allar þessa undirskriftir hafi safnast og á öllum skoðanakönnunum sem segja að Reykvíkingar vilji hafa flugvöllinn áfram. En afhverju eru þá Framsókn og flugvallavinir að mælast undir fimm prósentum?“
Kosningarnar, áhugaleysið á þeim og aðgengi barna að hestanámskeiðum eru til umræðu. Þá er fjallað um pólitískar skýringar ársins og tilnefnd skýring Ólafs F. Magnússonar á því hvers vegna enga mosku ætti að byggja í Reykjavík. „Víða er langt seilst,“ segir Dóri enda kemur Tyrkjaránið þar við sögu.
Hismi Árna og Grétars fer nú í sumarfrí en snýr aftur í ágúst (+/- þrjár vikur).
Hlustaðu á allan þáttinn af Hisminu í spilaranum hér að neðan.
Áskrift af Hlaðvarpi Kjarnans í gegnum iTunes.