„Því miður þykir mér við hérna í Reykjavík hafa verið svolítið sein að læra það sem aðrar borgir gerðu fyrir nokkru síðan,“ segir Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og áhugamaður um borgarskipulagsmál. Hann er gestur Hismisins hjá Árna Helgasyni og Grétari Theodórssyni þessa vikuna. Þeir ræða borgarmálin, viðbrögð Gísla í viðtalinu við Sigmund Davíð, Kópavog og margt fleira.
„Það er mjög vaxandi hópur hérna á Íslandi sem hefur áhuga á þessum málum og fattar það að borgir hafa svo rosalega mikil áhrif á líf okkar. Sérstaklega hérna á Íslandi: Tveir af hverjum þremur Íslendingum búa hér í korters fjarlægt frá staðnum sem við erum staddir á núna. 80% landsmanna búa í innan við klukkutíma fjarlægð frá miðbæ Reykjavíkur. Svo þetta er næstum því einhverskonar borgríki,“ segir Gísli Marteinn.
„Það þýðir auðvitað að öll vandamálin sem við stöndum frammi fyrir, hvort sem það eru umhverfismál, lýðheilsumál eða eitthvað slíkt, þau verða ekki leyst nema á vettvangi borgarinnar. Þess vegna er það algerlega glatað hvað ríkisstjórnir Íslands hafa haft lítinn áhuga á borgarmálum.“
Gísli Marteinn hefur í vetur haft umsjón með Sunnudagsmorgnum á RÚV en heldur utan í haust til að leggja stund á borgarskipulagsfræði í Boston. Þar vonast hann til að geta lært meira um áhugamál sitt svo hann geti miðlað því áfram hérna heima.
Hlustaðu á allan þáttinn af Hisminu í spilaranum hér að neðan.
Áskrift af Hlaðvarpi Kjarnans í gegnum iTunes.