„Ég er umkringd fallegum karlmönnum allan daginn,“ segir Margrét Erla Maack sem nýverið hóf störf í Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar. „Það er geggjað.“ Hún er gestur Hismisins þessa vikuna hjá þeim Árna Helgasyni og Grétari Theodórsyni.
Auk herrafatatískunnar ræða þau enn og aftur um Stöð 2 Gull, uppáhalds sjónvarpstöðina hans Árna, því á dögunum var endursýndur þáttur Jóns Ársæls um Halldór Ásgrímsson og för þeirra til Palestínu. Þau lýsa stórkoslegu atriði úr þættinum og ræða hvernig hugmynd Íslendinga um nektardans og vændi hefur breyst síðan Geiri á Goldfinger var viðfangsefni Sjálfstæðs fólks.
[embed]http://vimeo.com/109139834[/embed]
Enginn veit hvað hipster er
Þeim lék forvitni á að vita hvernig herrafatabransinn væri. „Herrafatabransinn er geggjaður og ég mundi ekki sækja um í hvaða fatabúð sem er,“ segir Margrét Erla. „Þetta er svolítið spes þarna og stundum eins og að vinna í félagsmiðstöð. Það er líka svo gott að vera í vinnu þar sem enginn er hálfviti.“
En lifir hipsterinn góðu lífi? „Hvað er hipster? Jón Gunnar Geirdal kallar sig hipster, sko. Það er bara til marks um að enginn veit hvað hipster er. Ekki ég, ekki þið og ekki Jón Gunnar Geirdal,“ segir Margrét Erla.
Hægt er að hlusta á þáttinn í spilaranum hér að ofan og í hlaðvarpsstraumi Kjarnans. Hismið er á Twitter: @Hismid