Tveir óvinsælustu forsetaframbjóðendur í sögu Bandaríkjanna há harða kosningabaráttu vestanhafs og nú er baráttan á lokametrunum. Kosið verður 8. nóvember og því tæplega tveir mánuðir til stefnu. Í tilefni af því hefur Kanavarpið göngu sína í Hlaðvarpi Kjarnans.
Donald Trump hefur hlotið aukinn stuðning á kostnað Hillary Clinton í skoðanakönnunum undanfarið, jafnvel þó Clinton sé ennþá talin líklegri sigurvegari. Hún virðist hafa notið mestra vinsælda um miðjan síðasta mánuð eftir landsfund Demókrataflokksins, þar sem hún hlaut útnefninuna sem frambjóðandi flokksins, en tapað stuðningi fólks stöðugt síðan.
Hallgrímur Oddsson og Hjalti Geir Erlendsson sjá um Kanavarpið þar sem fjallað verður um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 8. nóvember og kosningabaráttuna fram að þeim. Þú getur fylgst með þeim á Twitter undir nafninu @kanavarpid.
Í þætti dagsins spjalla þeir um fylgiskannanir vestanhafs, tölvupóstsvandræði sem reglulega hrella Clinton og fleiri fréttamál.