Atburðarás undanfarinna daga hefur verið með ólíkindum og má segja að slagurinn um Hvíta húsið hafi sjaldan verið jafn óvæginn. Washington Post birti upptökur frá 2005 þar sem Donald Trump heyrist stæra sig af því að geta misnotað konur í skjóli þess að vera frægur og ríkur og í kjölfarið hafa hátt settir Repúblikanar einn af öðrum afneitað Trump. En staðan er einnig viðkvæm fyrir Hillary Clinton sem reynir hvað hún getur að forðast umræður um ófagrar ásakanir á hendur Bill Clinton.
Í fimmta þætti Kanavarpsins ræða þeir Hallgrímur Oddsson og Hjalti Geir Erlendsson meðal annars ummæli Trump, erfiða stöðu hans og tölvuárásir á Hillary Clinton. Einnig fara þeir yfir hlutverk varaforseta Bandaríkjanna með áherslu á varaforsetaefnin Tim Kaine og Mike Pence.
Í síðari hluta þáttarins er sjónum beint að því sem stundum er kallað Trumpism eða Trumpismi, og fyrirbærið skoðað út frá afstöðu Trump til fríverslunarsamninga og milliríkjaviðskipta. Donald Trump hefur keyrt kosningabaráttu sína meðal annars á afdrífalausri andstöðu við fríverslunarsamninga á borð við Fríverslunarsamning Kyrrahafsríkja (TPP), Fríverslunarsamning Norður-Ameríku (NAFTA) og fyrirhugaðan fríverslunarsamning við Evrópusambandið (TTIP). Hillary þykir hins vegar jákvæðari í garð fríverslunarsamninga þótt hún hafi vissulega viðrar efasemdir, sérstaklega varðandi TPP.