Er Repúblikanaflokkurinn búinn að vera eða mun hann ganga í gegnum endurnýjun að kosningum loknum? Nú þegar yfirgnæfandi líkur á að Hillary Clinton verði næsti forseti Bandaríkjanna virðist sem demókratar hafi öll tromp á hendi. Flokkurinn nýtur yfirgnæfandi stuðnings á áhrifamestu þéttbýlisstöðum Bandaríkjanna, í háskólasamfélaginu, fjármálakerfinu og meðal helstu minnihlutahópa. Donald Trump hefur vissulega byggt upp þéttan og háværan stuðningsmannahóp en hann er einsleitur og mjög svæðisbundinn - auk þess sem kjörorð Trumps höfðar helst til hvítra miðaldra karla sem dreymir um afturhvarf til sjötta áratugarins.
Í sjöunda þætti Kanavarpsins ræða þeir Hallgrímur Oddsson og Hjalti Geir Erlendsson við Friðjón R. Friðjónsson, framkvæmdastjóra almannatengslafyrirtækisins KOM. Friðjón hefur víðtæka reynslu af stjórnmálastarfi og var meðal annars einn helsti ráðgjafi Guðna Th. Jóhannessonar í forsetakosningunum fyrr á árinu. Og hann bjó einnig um tíma í Washington D.C. og býr því yfir persónulegri reynslu af flokkslínum Bandaríkjanna.
Í þættinum ræða þeir meðal annars hvernig ákveðnir þjóðfélagshópar hafa haldið tryggð við sinn flokk, jafnvel svo kynslóðum skiptir og hvernig flokkarnir hafa þróast með tímanum. Framtíðin ber einnig á góma - hvað tekur við að kosningum loknum og hverjir munu rísa upp sem framtíðarleiðtogar demókrata og repúblikana?