Eftir langa, stranga og óvenju einkennilega kosningabaráttu er loksins komið að forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Kosningarnar um þetta valdamesta embætti heims fara fram á morgun, þriðjudaginn 8. nóvember 2016, og það er ljóst að barist verður um hvern einasta kjörmann. Þótt flest bendi til þess að Hillary Clinton verði næsti forseti þá á Donald Trump en raunverulega möguleika. Hann hefur haldið að sér höndum og verið óvenjurólegur síðustu tvær vikur á meðan Clinton hefur þurft að berjast við áframhaldandi ásakanir um vanrækslu í starfi, samhliða þess að dregið hefur saman á milli frambjóðendanna í könnunum.
Kanavarp vikunnar er sérsniðið að þörfum þeirra sem hyggjast fylgjast með kosningunum á einn eða annan hátt. Þeir Hallgrímur Oddsson og Hjalti Geir Erlendsson fara yfir kosningakerfið í Bandaríkjunum og kafa ofan í helstu barátturíkin sem munu ráða úrslitum. Hverjir eru þessir kjörmenn? Hvað einkennir gegnheil Demókratafylki annars vegar og Repúblikanafylki hins vegar? Hvar er baráttan tvísýn, hvers vegna og hvað skilur á milli aðeins örfáum dögum fyrir kosningar?
Í lok þáttarins verður farið allt það helsta sem sófaspekúlantar þurfa að vita. Farið verður yfir tímarammann, hvenær megi eiga von á fyrstu tölum og hvaða ríki og tölur skipta raunverulegu máli fyrir úrslitin. Þessi þáttur er tilvalinn upphitun fyrir þá sem ætla að horfa á kosningasjónvarpið aðfararnótt miðvikudags.
Kanavarpið bendir einnig áhugasömum á meðfylgjandi töflu sem gott er að hafa við höndina og sýnir stöðuna í öllum ríkjum Bandaríkjanna.