Donald John Trump verður 45. forseti Bandaríkjanna. Lýðræðið hefur talað. Sigur Trump á Hillary Clinton virðist hafa komið eins og þruma úr heiðskíru lofti, öllum að óvörum, eða hvað?
Flest, ef ekki öll, spálíkön og skoðanakannanir spáðu Clinton sigri og það sama gildir um helstu fjölmiðla- og fræðimenn. Þrátt fyrir þetta vann Trump nokkuð sannfærandi sigur sem tryggir honum meirihluta í kjörmannaráðinu. Þar að auki héldu Repúblikanar meirihluta í báðum þingdeildum Bandaríkjaþings. Það mun reynast erfitt að finna eina haldbæra skýringu á sigri Donald Trump og eflaust allt of snemmt að fella dóma. Hins vegar er alveg ljóst að boðskapur hans gegn fríverslunarsamningum, loforð um fjölgun starfa, íhaldsaman hæstarétt og herta innflytjendalöggjöf hefur náð til fjölmargra kjósenda.
Í sérstökum aukaþætti Kanavarpsins fara þeir Hallgrímur Oddsson og Hjalti Geir Erlendsson yfir þessi ótrúlegu- og sögulegu úrslit. Í þættinum fara þeir meðal annars yfir stórgallaðar skoðanakannanir og einsleitan fréttaflutning auk þess að stikla á stóru um hugsanleg fyrstu skref Trumps í embætti forseta. Ljóst er að úrslitin kalla á mikla sjálfsskoðun, hjá báðum flokkum, ekki síst hjá frjálslyndum Demókrötum, auk fjölmiðla, greiningar-fyrirtækja og sérfræðinga.