Sífellt er kallað eftir efnislegri umræðu um skýrslu um „Einkavæðingu bankanna hina síðari“ hjá þeim litla hóp sem að henni stendur. Sú efnislega umræða virðist þó fyrst og síðast eiga að vera sú að niðurstaða málsins verði önnur en fyrri efnisleg umræða hefur leitt af sér. Og Vigdís Hauksdóttir er sármóðguð yfir því að forseti Alþingis neitar að viðurkenna skýrsluna sem skýrslu.
Á sama tíma er búið að samþykkja þingrof og því staðfest að kosningar verði 29. október. Enn á eftir að afgreiða fjölmörg risamál áður en þingi verður slitið og eitt slíkt bættist við í byrjun viku þegar samkomulag um eitt lífeyriskerfi fyrir alla var kynnt. Hvaða mál eiga séns á að komast í gegn og hverjum verður augljóslega slegið á frest?
Fáir áttu kannski von á því að Björt framtíð myndi finna líflínu í búvörusamningum, en það gerði flokkurinn þó. Og á sama tíma framkvæmdu hinir stjórnarandstöðuflokkarnir risavaxið PR-klúður með því að standa ekki með kerfisbreytingavilja sínum á borði.
Svo þarf náttúrulega að ræða hverjir séu líklegir til að fara að drullumalla við íslensku Þjóðfylkinguna um rasistafylgið. Og um ferðamenn.
Þetta og margt fleira íKvikuþætti vikunnar þar sem Þórunn Elísabet Bogadóttir, aðstoðarritstjóri Kjarnans, og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri hans, fara yfir það helsta sem er á döfinni í þjóðfélagsumræðunni.