Í Kviku dagsins er farið mjög gaumgæfilega yfir stöðu hvers flokks rúmum tveimur vikum fyrir kosningar. Þar kemur fram að það sé átakanleg meðvirkni að eiga sér stað innan Samfylkingarinnar og engin þar virðist vilja benda á að ekkert, ekkert, sem forysta flokksins reynir að gera til að ná tengslum við kjósendur virkar. Í stað þess að sjá að fólkið sjálft er ástæða þess að kjósendur treysta ekki Samfylkingunni til að skapa það samfélag sem hún lofar þá er látið sem fjölmiðlar og kjósendur séu vandamálið.
Björt framtíð skóp sér skyndilega framtíð með því að vera á móti búvörusamningunum og nú snýst allt um átök við alla í kringum sig hjá flokknum, til að marka sér sérstöðu. Björt Ólafsdóttir gæti t.d. auðveldlega stofnað til rifrildis þessa daganna í símaklefa, ef slíkan væri að finna hérlendis.
Píratar virðast vera að beita Guðna Th.-taktínni, senda misvísandi og vona að fylgið minnki ekki dag frá degi. Í þætti dagsins er einnig fjallað um alla hina flokkanna sem mælast inni.
Þá fara stjórnendur yfir stöðuna í Bandaríkjunum og lýsa yfir áhyggjum af því að þótt rasistinn Trump vinni ekki þá hefur hann plægt jarðveg sem aðrir aðeins minna ruglaðir menn geta nýtt sér til að komast í valdamesta embætti heims með því að höfða til lægstu hræðslu, haturs og heimsku.
Þetta og margt fleira í Kvikuþætti vikunnar þar sem Þórunn Elísabet Bogadóttir, aðstoðarritstjóri Kjarnans, og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri hans, fara yfir það helsta.