Stjórnmál eru fyrirferðamikil í Kvikunni enda ævintýralega stutt til kosninga. Þáttastjórnendur ræða um ládeyðuna sem ríkir í kosningabaráttunni, bæði hjá þeim sem þurfa að sækja og þeim sem geta verið tiltölulega sáttir með sitt hlutskipti. Óskiljanlegt sé af hverju Samfylkingin breytti ekki um kúrs þegar við blasi að hún mun mögulega þurrkast út af þingi um þar næstu helgi og hjá Sjálfstæðismönnum er stöðugleikinn svo mikill að það kemur varla ein ný hugmynd fram.
Lætin í kringum Framsóknarflokkinn hafa minnkað eftir formannsuppgjörið, kosningaloforðsplaggið sem kynnt var um síðustu helgi var án hókus-pókus loforða sem flokkurinn hefur sérhæft sig í á undanförnum áratugum og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson virðist fyrst og fremst vera að einbeita sér að því að verða sinn eigin andlegi formaður á næsta kjörtímabili.
Ítarlega er farið yfir útspil Pírata, þar sem fylgið hrynur af í hverri könnuninni á fætur annari, um að boða valda flokka í viðræður sem augljóslega munu ekki skila þeim árangri sem lagt var upp með. Þetta allt, greiðslur kröfuhafar til íslenskra dagblaða, líklega ólögmæt notkun á íslenska fánanum og Monty Python stemmningin í Íslensku þjóðfylkingunni í Kviku dagsins með þar sem Þórunni Elísabetu Bogadóttur, aðstoðarritstjóra Kjarnans, og Þórði Snæ Júlíussyni, ritstjóri hans.