Rúmlega fjórði hver Íslendingur á þrítugsaldri sem býr á höfuðborgarsvæðinu býr í foreldrahúsum, fæðingartíðni Íslendinga er skelfileg og fyrstu foreldrar verða sífellt eldri. Ástæðan er bráðavandi á húsnæðismarkaði sem er ekki tekist á við og afleiðingin er sú að fullorðnir Íslendingar eru bernskir mun lengur en æskilegt þykir.
Stjórnarmyndunarviðræður virðast vera í takti við það sem þjóðin segir Gallup að hún vilji og Ríkisendurskoðun hefur nú bæst í hóp með Bankasýslu ríkisins, Fjármálaeftirlitinu, stjórnmálamönnum, fjölmiðlum og almenningi og fordæmt hvernig ríkisbankinn Landsbankinn hefur staðið að sölu á eignum sínum.
Sá sem ber ábyrgð á stjórnun bankans situr samt sem áður sem fastast og neitar að tjá sig um málið. Mjólkursamsalan vann sigur á Samkeppniseftirlitinu og samhliða var staðfest að búvörulög eru öðrum lögum í landinu æðri. Svo eru Baugsfjölskyldurnar orðnir eigendur að Högum að nýju.
Þetta og allt hitt sem skiptir máli í Kviku vikunnar með Þórunni Elísabetu Bogadóttur, aðstoðarritstjóra Kjarnans, og Þórði Snæ Júlíussyni, ritstjóra hans.