Forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra hefur haldið tveimur skýrslum frá þinginu og þar með almenningi. Þetta hefur að öllum líkindum haft áhrif á fordæmalausar óvinsældir nýrrar ríkisstjórnar, en nýjar ríkisstjórnir hafa iðulega verið vinsælastar í blábyrjun og fengið hveitibrauðsdaga. Því er ekki fyrir að fara núna.
Stjórnarandstaðan kemur líka af fullri hörku fram og er að leggja fram ýmis mál sem munu, ef þau komast til umræðu á þinginu, reynast ríkisstjórnarflokkunum erfið. Dæmi um það eru frumvörp um markaðsleið í sjávarútvegi, lengingu fæðingarorlofs og svo mögulega þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB.
Þingmenn hafa líka náð samkomulagi um að lækka aukagreiðslur til sín um sem nemur 150 þúsund króna launalækkun, en mun það duga til að sefa reiðina vegna 44% launahækkunar fyrir jól?
Donald Trump hefur svo verið ráðandi í allri umræðu, um allan heim, undanfarna daga. Kvikan hringdi í Magnús Halldórsson, blaðamann Kjarnans í Bandaríkjunum, til að ræða lífið í Trumplandi. Meðal þess sem var til umræðu voru rasistarnir sem eru á bak við nýja forsetann og kenning Steve Bannon um það hvernig hvíti karlmaðurinn geti náð völdum í óreiðunni.
Umsjónarmenn Kvikunnar eru að venju Þórunn Elísabet Bogadóttir og Þórður Snær Júlíusson.