Búið er að leysa sjómannaverkfallið og það var sigur fyrir Þorgerði Katrínu og litlu ríkisstjórnarflokkana, en samt varnarsigur. Það var greinilegt af viðbrögðum sjómanna þegar haldið var á sjó á nýjan leik að skattfrelsi fæðupeninga var ekki stóra málið.
Konur stýra bara sex af fimmtíu stærstu fyrirtækjum landsins, sem gera tólf prósent. Það er aðeins betra en í fjármálakerfinu í heild, en talsvert lakara en hjá forstöðumönnum ríkisstofnana, sem eru alveg að fara að ná 40 prósenta markinu.
Ríkisbankinn Landsbankinn, og þar með skattgreiðendur, hafa orðið af milljörðum króna vegna sölunnar á eignarhlut bankans í Borgun, en hópurinn sem keypti hlutinn er búinn að fá kaupverðið og rúmlega það til baka. Og nú virðist einkavæðing bankanna vera að komast á fullt skrið, þrátt fyrir að engin umræða eigi sér stað um það hvernig bankakerfið á að vera.
Þá eru nokkrir dagar þangað til kemur í ljós hvort kjarasamningar verða teknir upp aftur eða ekki, og Píratar vilja reyna að koma í veg fyrir það með því að þvinga kjararáð til að úrskurða þingmönnum og ráðherrum lægri laun.
Þetta og margt fleira í Kviku vikunnar með Þórunni Elísabetu Bogadóttur og Þórði Snæ Júlíussyni.