Kjarasamningar héldu þrátt fyrir forsendubrest. Raunar var þeim reddað fyrir horn á allra síðustu dögum með því að ríkið bætti 1,5 milljarði króna í stofnframlög til almennra íbúða svo að ein af þremur meginforsendum kjarasamninga myndi halda. Mikilvægasta forsendan, sú að launahækkanir allra haldist innan ákveðins ramma er hins vegar brostin, meðal annars vegna þess að laun þingmanna hækkuðu langt umfram þau viðmið sem sett voru.
Áfengisfrumvarpið var afgreitt inn í allsherjar- og menntamálanefnd í gær þar sem sitja ansi margir flutningsmenn þess. Ansi góðar líkur eru því á að frumvarpið verði loks afgreitt til annarrar umræðu. En hvernig munu atkvæði falla? Lausleg hausatalning, án allrar ábyrgðar, gefur til kynna að Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra gæti ráðið úrslitum með atkvæði sínu um hvort áfengi verði selt í búðum og auglýsingar á áfengi verði heimilaðar á Íslandi.
Þá fjallar Kvikan um fyrirhugaðar bankasölur, endalaust vesen Borgunar og loks viðurkennt neyðarástand á húsnæðismarkaði. Umsjónarmenn eru Þórunn Elísabet Bogadóttir og Þórður Snær Júlíusson.