Keflavík og Hvassahraun eru ekki einu möguleikarnir þegar kemur að uppbyggingu í flugi á Íslandi. Það er til dæmis hægt að skoða uppbyggingu alþjóðaflugvallar á Egilsstöðum, sem gæti orðið flugvöllur fyrir vöruflutninga og þá einnig miðstöð fyrir flug yfir Atlantshafið.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í máli Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, sem er gestur sjónvarpsþáttarins Kjarnans á Hringbraut í kvöld, en Kjarninn heitir Kvikan í hlaðvarpi Kjarnans. Þórður Snær Júlíusson og Þórunn Elísabet Bogadóttir stjórna þættinum, sem í kvöld fjallar um ferðaþjónustuna.
Þau ræða þá gjörbreyttu stöðu sem er uppi í ferðaþjónustunni nú miðað við fyrir örfáum árum. Ísland hefur á fáum sviðum náð að halda í við breytingarnar og aukninguna. Tekjumöguleikarnir sem ríkið hefur af ferðamannastraumnum, ekki síst til þess að standa straum af innviðauppbyggingu, koma við sögu, og þeirri spurningu velt upp hvort ekki hefði átt að fara í miklu meiri innviðauppbyggingu fyrir mörgum árum síðan.