Í þætti vikunnar er fjallað um gríðarmiklar eignir ríkustu fjölskyldna landsins, Norðurlandaráðsþingið í Stokkhólmi og aðskilnað ríkis og kirkju.
Í svari fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn á Alþingi um skuldir og eignir landsmanna sem birt var í síðustu viku, kemur fram að alls áttu ríkustu 238 fjölskyldur landsins 260 milljarða í loks árs 2018. Eigið fé þessara fjölskyldna jókst um 23,6 milljarða í fyrra. Ljóst er að uppgangur síðustu ára hefur skilað því að eigið fé þessara fjölskyldna hefur vaxið en hvað með eigið fé annarra landsmanna?
Þing Norðurlandaráðs fór fram í Stokkhólmi í Svíþjóð í síðustu viku og voru loftslagsmál meginþema þingsins. Þá voru jafnframt veitt verðlaun Norðurlandaráðs og vakti það mikla athygli þegar danski rithöfundurinn Jonas Eika gagnrýndi stefnu danskra stjórnvalda í innflytjendamálum er hann fékk bókmenntaverðlaun ráðsins. Nýr forseti þingsins, Silja Dögg Gunnarsdóttir, hefur gagnrýnt rithöfundinn.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði að óhjákvæmilegt væri að stefna í átt að fullum aðskilnaði ríkis og kirkju í aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær. Að hennar mati samrýmist sjálfstæð kirkja óháð ríkisvaldinu betur trúfrelsi og skoðanafrelsi en sérstaðan sem þjóðkirkjan hefur notið í íslenskri stjórnskipan.
Birna Stefánsdóttir stjórnar þættinum að venju og með henni eru Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, og Bára Huld Beck blaðamaður.