Í þætti vikunnar er fjallað um brottvísun þungaðrar albanskrar konu sem gengin var nærri 36 vikur ásamt fjölskyldu sinni, nýja íslenska lággjaldaflugfélagið Play sem kynnt var til sögunnar í síðustu viku, valdablokkirnar í íslensku viðskiptalífi og úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslensku efnahagslífi.
Nafn nýs flugfélags, Play, hefur vakið töluverða athygli sem og áætlanir félagsins um að greiða starfsmönnum sínum minna fyrir meiri vinnu.
Í síðustu viku var þungaðri albanskri konu sem gengin var nærri 36 vikur vísað úr landi, ásamt fjölskyldu sinni, eiginmanni og tveggja ára barni, þrátt fyrir að teljast bæði í áhættuhópi vegna fyrri meðgöngu og vera í erfiðri stöðu sem umsækjandi um alþjóðlega vernd. Brottvísunin var jafnframt í andstöðu við ráðleggingar heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Kjarninn fjallaði um hið nýja Ísland í ítarlegum fréttaskýringum í síðustu viku og þær fjárfestingablokkir einkafjárfesta sem hafa verið að láta á sér kræla í atvinnulífinu. En hvernig lítur þetta nýja Ísland út?
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti úttekt á íslensku efnahagslífi í gær. Hvað var þar að finna?
Stjórnandi þáttarins er Birna Stefánsdóttir og með henni eru að venju Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, og Bára Huld Beck, blaðamaður.