Í þætti vikunnar er fjallað um banka á breytingaskeiði, stöðu Samherjamálsins hér á landi, sem og í Namibíu, og hið margfræga fjölmiðlafrumvarp.
Arion banki stendur um þessar mundir í umfangsmikilli endurskipulagningu á rekstri sínum og er bankinn að draga verulega úr umsvifum sínum. Í því felst að takmarka verulega útlán sín, fækka starfsfólki hratt og borga út eins mikið af eigin fé sínu til eigenda og hann kemst upp með, á sem skemmstum tíma.
Greint var frá því í gær að fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og þrír aðrir hefðu verið ákærðir fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur fyrir að tryggja félögum tengdum Samherja eftirsóttan kvóta í Namibíu. Sexmenningarnir drógu jafnframt beiðni sína um lausn úr haldi gegn tryggingu til baka í gær og verða þeir því áfram í gæsluvarðhaldi til 20. febrúar næstkomandi. En hvar standa málin hér á landi?
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykkti í gær að afgreiða út úr þingflokknum frumvarp Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Samþykktin var þó með ýmsum fyrirvörum meðal annars þess að tekið yrði á umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði. Nú er frumvarpið því loks að komast í þinglega meðferð en Lilja hefur lagt mikla áherslu á gildistaka frumvarpsins sé frá 1. janúar 2020.
Birna Stefánsdóttir stýrir þættinum að venju og með henni eru Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, og Bára Huld Beck, blaðamaður.