Í þætti vikunnar er farið yfir stórsigur breska Íhaldsflokksins, sameiningu DV og Fréttablaðsins, vendingar í Samherjamálinu og þinglok.
Íhaldsflokkurinn sigraði með afgerandi hætti í bresku þingkosningunum í síðustu viku. Flokkurinn hlaut 365 þingmenn og hefur 80 þingmanna meirihluta, þann mesta sem flokkurinn hefur haft frá þriðju kosningum Margaret Thatcher árið 1987. Að sama skapi hlaut Verkamannaflokkurinn sína verstu útreið í áratugi.
Greint var frá því í síðustu viku að Torg ehf., útgefandi Fréttablaðsins og Hringbrautar, hefði keypt DV. Samningurinn er þó með fyrirvara um samþykki fjölmiðlanefndar og Samkeppniseftirlitsins en verði af sameiningunni verður þar á ferð eini fjölmiðill landsins sem heldur úti prent-, net- og sjónvarpsmiðli.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja, sagði í viðtali við norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv í síðustu viku að hann efaðist um að nokkrar mútugreiðslur hefðu átt sér stað eða að fyrirtækið væri eða hefði verið flækt í nokkuð ólögmætt. Þá sagði Björgólfur jafnframt að Jóhannes Stefánsson, sem starfaði hjá Samherja í Namibíu fram á mitt ár 2016 og uppljóstraði um viðskiptahætti fyrirtækisins þar, hefði verið einn að verki þegar kom að þeim greiðslum sem stæðust ekki skoðun.
Þingflokksformenn á Alþingi komust að samkomulagi um þinglok í lok síðustu viku. Samkvæmt starfsáætlun þingsins átti síðasti þingfundur fyrir jólafrí að vera á föstudaginn, það náði þó ekki fram að ganga og sömdu þingmennirnir að síðasti dagur þingsins yrði í dag, þriðjudag.
Birna Stefánsdóttir stjórnar þættinum í dag og með henni að venju eru Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, og Bára Huld Beck, blaðamaður.