Stefán Eiríksson, sem tekur við starfi útvarpsstjóra RÚV eftir helgi, segir að hann hafi ekki neinar áhyggjur af því að RÚV sé í betri rekstrarstöðu en samkeppnisaðilar þess. Í Kviku vikunnar spjallar Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, við nýjan útvarpsstjóra.
„Ég upplifi það ekki þannig að RÚV sé of stórt í vissum skilningi, en það er vissulega stórt. Hlutverkið sem að Ríkisútvarpinu er ætlað lögum samkvæmt og samkvæmt þjónustusamningi hefur mjög víðtæku og fjölbreyttu hlutverki í samfélaginu að gegna. Ég held satt best að segja að það sé mikill meirihluti almennings og stjórnmálamanna sem vilja að Ríkisútvarpið haldi áfram að sinna því hlutverki en að sama skapi er mikilvægt að það séu starfandi sjálfstæðir aðrir óháðir fjölmiðlar og að þeir fái stuðning, eins og menntamálaráðherra er búin að teikna upp með ákveðnum hætti í sínu frumvarpi, til þess að sinna sínum störfum með góðum hætti.
En að saman skapi verða allir fjölmiðlar, Ríkisútvarpið, sem er á auglýsingamarkaði að hluta, og síðan aðrir fjölmiðlar að aðlaga sig að þessu breytta samfélagi. Og aðlaga sig að breyttu umhverfi um miðlun og sölu auglýsinga og slíks efnis. Ef að viðkomandi er ekki á tánum hvað það varðar þá verður hann hratt og örugglega undir. Og við höfum séð alveg gríðarlegar sviptingar á þessum markaði.“