„Bara til þess að setja þessa tölu í samhengi, 120 milljarða króna, þá gæti hún verið mikilvægt vaxtafjármagn fyrir þúsund fyrirtæki sem eru að fara inn vaxtaskeið. Ef eitt prósent þessara fyrirtækja nær árangri þá gæti það samt skapað mikinn fjölda starfa, en framlagið til þúsund fyrirtækja myndi alltaf vitaskuld skapa þúsundir starfa, miklu fleiri en þau störf sem yrðu hugsanlega í áburðaverksmiðjunni,“ segir Viggó Ásgeirsson, mannauðsstjóri og einn stofnenda hugbúnaðarfyrirtækisins Meniga, en hann er gestur í Kvikunni, hlaðvarpsþætti um efnahagsmál og viðskipti.
Í þættinum ræðir hann meðal annars um hugmyndir sem hafa komið upp um að reisa 120 milljarða áburðaverksmiðju, en sjö þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis á Alþingi.
Viggó segir rekstrarumhverfi fyrirtækja hér á landi, sem vaxi úr því að vera sprotar í að vera fyrirtæki með vaxandi alþjóðlega starfsemi, um margt vera ákjósanlegt. Hann segir Meniga hafa notið góðs af þessum stuðningi, meðal annars með framlögum úr Tækniþróunarsjóði, frá Frumtaki og úr fleiri áttum, og einnig hafi fyrirtækið geta nýtt sér 20 prósent skattafslátt fyrir rannsóknar- og þróunarstarf. „Sprotaumhverfið er um margt ágætt, en þegar fyrirtæki eru farin að vaxa þá vantar meiri stuðning og einfaldlega meira fjármagn,“ segir Viggó.
Uppgangur Meniga, frá því fyrirtækið var stofnað í byrjun árs 2009, hefur verið ævintýri líkastur. Fyrr í þessum mánuði var starfsmaður númer 100 ráðinn. Í næsta mánuði flytur fyrirtækið í Turninn við Smáratorg þar sem húsnæði í Kringlunni, þar sem Sjóvá er til húsa, var orðið of lítið. „Okkur hefur liðið óskaplega vel í Kringlunni og í rauninni höfum við verið að fresta því að flytja vegna þess. Húsnæðið var hins vegar orðið alltof og lítið. En það verður gaman halda áfram að vaxa í Turninum,“ segir Viggó.
Meniga leiðandi á heimsvísu í þróun og sölu heimilisfjármálalausna og afleiddum gagnavörum og eru viðskiptavinir fyrirtækisins meðal annars margir af stærstu bönkum heimsins.