„Þetta snýst um að halda fókus,“ segir Gunnlaugur Reynir Sverrisson, framkvæmdastjóri sprotafyrirtækisins Skyhook ehf., sem framleiðir hugbúnaðinn mymxlog fyrir fyrirtæki í flugiðnaði. Fyrirtækið hefur verið að styrkjast undanfarin misseri, þó það sé enn á sprota- og nýsköpunarstiginu. Eftir að hafa fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði á vormánuðum í fyrra hefur boltinn byrjað að rúlla enn hraðar. Það þjónustar nú fyrirtæki í flugiðnaði hér á landi og erlendis, og á meðal annars í samningaviðræðum við fyrirtæki í London þessa dagana. Gunnlaugur Reynir er gestur í nýjasta þætti Kvikunnar, vikulegs hlaðvarpsþáttar um efnahagsmál- og viðskipti. Hann fer yfir ýmsar áskoranir sem þetta litla en áhugaverða fyrirtæki er að glíma við. Samhliða starfi sínu sem framkvæmdastjóri Skyhook ehf. er Gunnlaugur Reynir ritstjóri tæknivefsins Simon.is. Hann segir margt spennandi vera að gerast núna í tækniheiminum. „Snjallsímarnir eru farnir að þróast töluvert hægar núna, og ekki miklar breytingar. En þessi tækni sem maður ber á sér, úrin og Google-glasses og slíkt, ég hugsa að það gætu verið mjög spennandi hlutir að gerast á næstu árum í slíku,“ segir Gunnlaugur Reynir.
Meira handa þér frá Kjarnanum