Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur gefið út skýrslu sína um slys við Akrafjallsveg 6. apríl í fyrra þar sem sautján ára gömul stúlka, Lovísa Hrund Svavarsdóttir, lést. Meginniðurstöður rannsóknarnefndarinnar eru þær að ökumaður BMW jeppabifreiðar hafi ekið yfir á rangan vegarhelming í veg fyrir litla fólksbifreið með þeim afleiðingum að Lovísa lést. Ökumaðurinn var ofurölvi, mældist með um 2,7 prósent magn áfengis í blóði. „Einstaklingur undir svo miklum áfengisáhrifum er rænulítill og hefur skerta stjórn á hreyfingum auk annarra þátta sem skerða ökuhæfni. Líkur á að missa meðvitund sökum ölvunar eru talsverðar í þessu ástandi,“ segir í skýrslunni.
Áreksturinn var harður, en Lovísa Hrund ók Toyota Yaris bifreið. Þyngdarmunur bifreiðanna var mikill, BMW-jeppabifreiðin ríflega tvö tonn en Yaris bifreiðin tæplega eitt tonn.
Lovísa Hrund var í öryggisbelti. Niðurstöður áfengis- og lyfjarannsóknar sýndu að hún var ekki undir áhrifum áfengis eða lyfja er slysið átti sér stað, samkvæmt skýrslunni.
Slysið átti sér stað 2:19 að nóttu til og var bleyta á vettvangi. Í skýrslunni kemur fram að ökumaður BMW bifreiðarinnar hafi ekki veitt Yaris bifreiðinni athygli né áttað sig á því að hann var kominn yfir á rangan vegarhelming.
Héraðsdómur Vesturlands dæmdi ökumann jeppans, konu á fimmtugsaldri, í 12 mánaða fangelsi, þar af níu mánuði skilorðsbundið, fyrir manndráp af gáleysi.