Oddvitar þeirra ellefu framboðslista sem verða á kjörseðlinum í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík þann 14. maí næsktomandi sitja fyrir svörum og skýra út stefnumálin í nýjum þætti í hlaðvarpi Kjarnans.
Með orðum oddvitanna eru viðtalsþættir þar sem efsti frambjóðandi hvers lista er tekinn tali.
Í fyrsta þættinum er rætt við Líf Magneudóttur, oddvita Vinstri grænna í Reykjavík. Í þættinum talar hún um stefnumál Vinstri grænna en flokkurinn hefur meðal annars sagst ætla að standa fyrir uppbyggingu húsnæðis.
„Það er það sem við í Vinstri grænum erum að setja á borðið að Reykjavíkurborg byggi sjálf. Það er ekki þannig að við séum að fara að stofna eitthvað byggingafélag, alls ekki. Við erum hins vegar að fara að stíga inn á markaðinn, taka þær lóðir sem við sannarlega eigum og byggja á þeim þannig að allir Reykvíkingar geti komist í öruggt húsnæði,“ segir Líf meðal annars í fyrsta þættinum.
Þættirnir verða birtir næstu daga á Kjarnanum og verða aðgengilegir í helstu hlaðvarpsveitum.