Kolbrún Baldursdóttir oddviti Flokks fólksins í Reykjavík situr fyrir svörum í fjórða þætti af Með orðum oddvitanna í hlaðvarpi Kjarnans. Oddvitar þeirra ellefu framboðslista sem verða á kjörseðlinum í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík 14. maí skýra út sín stefnumál í þáttunum, einn oddviti í hverjum þætti.
Kolbrún hefur setið í borgarstjórn í minnihluta síðustu fjögur ár og er gagnrýnin á það hvernig meirihlutinn í Reykjavík starfar, lítið mark sé tekið á minnihlutanum og hann komist ekki að borðinu.
Kolbrún vill að lögð verði áhersla á að eyða biðlistum barna sem bíða eftir þjónustu á borð við sálfræði- og talmeinaaðstoð. Þá vill hún fleiri sérskóla eins og Klettaskóla þar sem skóli án aðgreiningar, sem sé falleg hugmynd á blaði, virki ekki fyrir alla.