Ómar Már Jónsson oddviti Miðflokksins er viðmælandi í níunda þætti af Með orðum oddvitanna. Oddvitar þeirra ellefu framboðslista sem verða á kjörseðlinum í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík þann 14. maí næstkomandi sitja fyrir svörum og skýra út stefnumálin í hlaðvarpi Kjarnans, en í hverjum þætti er einn oddviti framboðanna í Reykjavík tekinn tali.
Miðflokkurinn hefur verið með einn fulltrúa í borgarstjórn á kjörtímabilinu. Ómar Már kemur nýr inn á sviðið í borgarpólitíkinni en starfaði lengi sem bæjarstjóri og sat í bæjarstjórn í Súðavíkurhreppi. Í viðtalinu talar hann meðal annars um útþenslu borgarinnar.
„Þar mundi ég vilja horfa á það að setja algjört ráðningarstopp í borginni en verja alla grunnþjónustu, bæta í snemmtæka íhlutun og eftirfylgni með þeim sem þess þurfa í skólakerfinu. Einbeitum okkur að þeim lögbundnu verkefnum sem borgin á að vera að sinna. Við erum ekki að því í dag, borgin er að þjóna sjálfri sér með allt of mikið af gæluverkefnum,“ segir Ómar og minnist samþættingar á þjónustu sem ráðist var í fyrir vestan í hans tíð.