Pottersen er hafið á nýjan leik. Systkinin Emil og Bryndís kafa æ dýpra í söguheim Rowlings og nú liggur þriðja bókin um galdrastrákinn fyrir, Harry Potter og fanginn frá Azkaban. Harry er orðinn þrettán ára, hann hefur tvívegis staðið andspænis Voldemort í Hogwarts og lætur því ekki bjóða sér lengur að vera úthúðað á heimili Dursley-fjölskyldunnar. Eftir að hann missir stjórn á sér og fremur galdur í Muggaheimi fer hann að heiman með koffortið sitt. Það líður ekki á löngu þar til Harry fréttir að stórhættulegur galdramaður, Sirius Black, hefur sloppið úr Azkaban-fangelsinu og talið er að hann sé á höttunum eftir honum. En Harry er sannfærður um að honum verði óhætt í Hogwarts. Vitsugur eru á sveimi, feigðarfyrirboðar gera vart við sig, nýir kennarar eru komnir í skólann, rotta Rons er eitthvað slöpp, Hermione er með yfirfulla stundatöflu ‒ margt gerist í fyrstu sex köflunum og það er augljóst að Harry og félagar eiga mikið í vændum.