Pottersen-systkinin Emil og Bryndís hefja lestur á Harry Potter og bölvun barnsins, leikritinu sem gefið var út á bók. Fyrsti þáttur (Act I) er nú til umræðu. Þetta er áttunda sagan um Harry og félaga og hún hefst nítján árum eftir fall Voldemorts.
Sagan hverfist samt ekki um Harry, heldur er aðalpersónan yngri sonur hans, Albus Severus Potter. Ólíkt pabba sínum og stóra bróður gengur Albusi illa í Hogwarts, hann er valinn í Slytherin-heimavistina og finnst hann einskis nýtur. Smám saman fjarlægist Albus fjölskyldu sína og vingast við Scorpius Malfoy, son Dracos. Harry starfar í galdramálaráðuneytinu og Hermione er galdramálaráðaherra.
Þau hafa fundið fyrir breytingum innan galdraheimsins, Harry gerði ólöglegan tímabreyti upptækan og hann finnur til í örinu. Svo virðist sem friðurinn sé brátt úti. Til að bæta gráu ofan á svart rífast feðgarnir, Albus og Harry, heiftarlega og það lítur út fyrir að það muni hafa afdrifaríkar afleiðingar.