Jónína Einarsdóttir fæddist 1954 í Reykjavík og ólst upp í Dölunum. Hún lauk BA prófi í mannfræði 1988 frá Stokkhólmsháskóla og doktorsprófi í mannfræði frá sama skóla árið 2000. Auk þess lærði hún spænsku, kennslufræði og efnafræði. Jónína er prófessor í
mannfræði við Háskóla Íslands.
Helstu rannsóknarsvið Jónínu hafa verið mannfræði barna og ungmenna, heilsumannfræði og rannsóknir á þróunarsamvinnu. Hún var lengi á vettvangi í Gíneu Bissá, í Vestur Afríku, þar sem hún rannsakaði margbreytilega þætti sem snéru að heilsu barna, barnadauða og sorgarviðbrögðum mæðra, brjóstagjöf og mansali á börnum. Hún hefur einnig rannsakað sögu og veruleika íslenskra barna sem voru „send í sveit“ á síðustu öld og velt fyrir sér ýmsum siðferðislegum spurningum því tengdu, t.d. hvort hægt sé að skilgreina það sem mansal.
Þetta viðtal snýst einkum um söguleg og pólitísk samskipti, sem og valdaójöfnuð á milli ríkra landa og fátækra, það sem stundum er kallað tengsl Norðurs og Suðurs. Einn þáttur þessara
samskipta er þróunarhjálp, sem hefur verið umdeilt fyrirbæri meðal margra mannfræðinga.