Viðmælandi hlaðvarpsins að þessu sinni er Unnur Helga Möller en hún er fædd á Akureyri 8. janúar 1985. Unnur Helga lauk BA prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands 2013 og MA prófi frá sama skóla 2015. Í lokaverkefnum sínum hefur hún tekist á við aðdáendasamfélög á netinu og kvikspuna á Norðurlöndum.
Unnur Helga hefur búið í Austurríki, Þýskalandi, Bretlandi og Svíþjóð en er nú búsett í Hafnarfirði. Áhugasvið hennar tengjast öllum almennum nördaskap, tónlist, sviðslistum, þjóðbúningum og öllu sem er gamalt með sögu.
Hún hefur í gegnum tíðina unnið sem söngvari, leiðsögumaður á söfnum, við tómstundafræðslu og efnissköpun en starfar nú sem viðburðastýra viðburða og miðlunar á Bókasafni Hafnafjarðar.
Við ræddum við Unni Helgu um aðdáendamenningu, kvikspuna, bókasöfn og hvernig mannfræðin kemur inn í þetta allt saman.