Að þessu sinni heyrum við í sjónræna mannfræðingnum og heimildarmyndagerðamanninum Jóni Bjarka Magnússyni. Jón Bjarki segir okkur frá sinni sýn á mannfræðina og ferlinu á bakvið tvær heimildarmyndir sínar, annars vegar Even Asteroids Are Not Alone sem hlaut stuttmyndaverðlaun hinnar konunglegu mannfræðistofnunarinnar í Bretlandi (RAI) árið 2019 og hinsvegar Hálfur Álfur sem m.a. hlaut dómnefndarverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar 2020.
Jón Bjarki er fæddur 1984 á Siglufirði og uppalinn þar. Hann nam ritlist við Háskóla Íslands og útskrifaðist með meistaragráðu í sjónrænni mannfræði við Freie Universität í Berlín 2018.
Hann hefur starfað sem blaðamaður fyrir DV og Stundina auk þess sem skrif hans hafa birst í erlendum miðlum á borð við Slate í Bandaríkjunum og Correctiv í Þýskalandi. Hann hefur tvívegis hlotið blaðamannaverðlun blaðamannafélags Íslands, fyrir umfjöllun um stöðu hælisleitenda og flóttafólks á Íslandi sem og lekamálið. Kvikmyndaverk hans hafa verið sýnd á ýmsum kvikmyndahátíðum í Evrópu, svo sem Docslisboa, Transmediale í Berlín og alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Tromsö, TIFF.
Jón Bjarki sinnir kennslu í sjónrænni mannfræði við HMKW háskólann í Berlín, kvikmyndaverkefnum fyrir Filmmaking For Fieldwork (F4F™) verkefnið í Manchester, auk þess að vinna að eigin verkefnum í gegnum framleiðslufyrirtækið SKAK bíófilm sem hann rekur með Hlín Ólafsdóttur.
Heimildarmynd hans Even Asteroids Are Not Alone er hægt að nálgast á Vimeo:
https://vimeo.com/jonbjarki/neweden
Heimildarmynd hans Hálfur Álfur er hægt að nálgast á sarpi RÚV: www.ruv.is/sjonvarp/spila/half…-alfur/31329/9aor8h