Viðmælandi vikunnar er Árdís Kristín Ingvars, félags- og mannfræðingur, sem er aðjúnkt í félagsfræði við Háskóla Íslands. Árdís fæddist í Reykjavík árið 1970. Hún lauk BA prófi árið 2010 í mannfræði við Háskóla Íslands og diplómu í hnattrænum tengslum, fólksflutningum og fjölmenningarfræðum árið 2013, frá HÍ. Árdís lauk MA námi í mannfræði við HÍ ári seinna. Árið 2019 lauk Árdís doktorsprófi í félagsfræði frá HÍ.
Árdís hefur einkum rannsakað málefni flóttafólks, en einnig stöðu fatlaðra og atvinnuþátttöku þeirra á Íslandi. Ein helsta áhersla Árdísar hefur verið staða ungra karlkyns innflytjenda og flóttamanna, bæði hinsegin og gagnkynhneigðra, og mótun kyngervis þeirra í nýjum og framandi félagslegum og menningarlegum aðstæðum, og skörun þessara þátta við neikvætt pólitískt andrúmsloft gagnvart flóttafólki og vaxandi þjóðernishyggju. Þessir þættir hafa tengst aukinni öryggisvæðingu Evrópu þar sem ímynd karla frá Miðausturlöndum er í auknum mæli glæpavædd. Út frá þessum þáttum hafa rannsóknir Árdísar einkum fókuserað á hvernig ungum körlum á flótta hefur gengið að fóta sig í breyttum aðstæðum í framandi samfélagi sem virkir þátttakendur.