Í þessum þætti er rætt við mannfræðinginn Gísla Pálsson um mannöldina og aldauðann, útrýmingu lífvera og fótspor og fingraför mannsins á plánetuna sem hann byggir ásamt ört hverfandi lífverum, þar á meðal geirfuglinum sáluga sem átti sínar lokastundir á Íslandi. Rætt er um orsakir og afleiðingar en einnig um hvernig hægt er að bregðast við þeirri þróun sem blasir í auknum mæli við okkur öllum.
Gísli Pálsson fæddist árið 1949 í Vestmannaeyjum. Hann var sá fyrsti sem útskrifaðist sem mannfræðingur frá Háskóla Íslands, með BA gráðu 1972. Síðan lauk hann MA námi frá Háskólanum í Manchester og doktorsnámi frá sama skóla 1982. Gísli hefur átt langan og farsælan feril sem mannfræðingur og liggur eftir hann mikið bákn útgefins efnis. Eitt megin stef í fræðastarfi Gísla hefur verið samband náttúru og samfélags, sem greina má m.a. á því samtali sem hér fer fram.