Yfirvofandi hamskipti verkalýðshreyfinga landsins hafa ekki farið fram hjá mörgum, en skiptar skoðanir eru á því hvort þessar breytingar séu af hinu góða, eða ógni þeim efnahagslega stöðugleika sem flestir vilji búa við. Vor í verkó segja sumir, en aðrir hugsa með hryllingi til óðaverðbólgu áttunda og níunda áratugar seinustu aldar.
Stéttabarátta og verkalýðsmál eru í sérstöku uppáhaldi hjá félagsfræðingum, og því þótti okkur upplagt að fá tvo forkólfa þessarar nýju hreyfingar – Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, og Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóra Eflingar – til þess að segja okkur frá því hvers vegna þessar sviptingar eru að eiga sér stað, og að hverju sé stefnt.