Í hlaðvarpi vikunnar fær Sigrún til sín Sjöfn Vilhelmsdóttur en hún varði nýlega doktorsritgerð sína í stjórnmálafræði. Ritgerðin ber heitið Pólitískt traust á Íslandi: Helstu áhrifaþættir og þróun frá 1983-2018.
Þar skoðar Sjöfn þróun á pólitísku trausti hér á landi yfir tíma en ber traust hérlendis einnig saman við traust almennings í Evrópu. Sjöfn hefur verið forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála síðan 2015 en mun á árinu flytja sig um set og hefja störf sem forstöðumaður Landgræðsluskólans.
Þær Sigrún ræða almennt um pólitískt traust hér á landi, hvernig það minnkaði gífurlega í kjölfar Hrunsins og ástæður þess að erfitt hefur verið að byggja það upp að nýju, þrátt fyrir að Ísland hafi komið betur út úr efnahagskreppunni heldur en svörtustu og jafnvel bjartari spár bjuggust við.
Að auki ræða þær hvernig þættir eins og tengsl við stjórnmálaflokka eða Ríkisstjórnina, upplifun á spillingu og ýmsir aðrir félagslegir þættir hafa áhrif á hvort fólk treysti Alþingi og stjórnmálunum almennt.