Í hlaðvarpi vikunnar spjallar Sigrún við Antonio Maturo en hann er dósent í félagsfræði við háskólann í Bologna á Ítalíu. Eins og allir vita hefur Ítalía orðið hvað verst úti í þeim faraldri sem nú geisar og ræða þau um hvernig staðan er á Ítalíu þessa stundina, hvernig hún hefur þróast og hvernig félagsfræðin getur hjálpað okkur að skilja hvað er að gerast í samfélaginu.
Antonio er heilsufélagsfræðingur en rannsóknir hans hafa tengst skipulagningu heilbrigðiskerfisins, reynslu sjúklinga af krónískum veikindum og sjúkdómsvæðingu. Það er því augljóst að Antonio getur sagt okkur ýmislegt um samspil heimsfaraldurs og samfélags, þar sem heilsufélagsfræðin er ein af þeim undirgreinum félagsfræðinnar sem hefur hvað mest að segja á þessum tímum.